• LI_Asdis_Esja1

Esjan

Ásdís Sif Gunnarsdóttir 2006

Ásdís Sif Gunnarsdóttir er ein af þeim sem hafa heillast af bæjarfjalli Reykvíkinga og í desember 2006 ákvað hún að draga upp þá mynd af Esjunni sem hér birtist. Verkið var sýnt í fyrsta sinn á samsýningu nokkurra listamanna þar sem áherslan var á notkun ljóss, enda var sýningarrýmið myrkvað og einu ljósgjafarnir verkin sjálf. Það er samsett úr mörgum hlutum og hefur verið skilgreint sem vídeóinnsetning, eða þrívítt myndverk samsett úr mörgum hlutum ásamt kvikmynd sem mynda eina heild í rýminu.

Í bakgrunni verksins er kvikmynd varpað á vegg og þar getum við fylgst með göngu listamannsins á snæviþakið fjallið auk mynda sem Ásdís Sif tók af Esjunni úr fjarlægð. Myndavélinni er að mestu beint niður og við sjáum göngustíginn og nánasta umhverfi hans, lítinn læk og vetrarhjarn. Myndin er tekin um miðjan dag en takmörkuð desemberbirtan gefur verkinu draumkenndan en um leið nöturlegan blæ. Milli myndvarpans og myndarinnar á veggnum hefur Ásdís Sif komið fyrir ýmsum hlutum sem varpa skugga eða brjóta upp ljósið frá varpanum svo úr verður heilmikið sjónarspil sem óneitanlega kallar fram tilfinningu fyrir köldum og kyrrum vetrardegi um leið og það minnir á leik og ljóðrænu sem einnig  einkenna önnur verk Ásdísar. Gustur frá viftu kemur hreyfingu á heildarmyndina sem kallast á við óstöðuga, handstýrða kvikmyndatöku listamannsins. Sjálf nefnir Ásdís Sif hlutina sem standa á gólfinu og hanga úr loftinu skúlptúra, en ef vel er að gáð sést að meirihlutinn er hlutir og smádót sem listakonan hefur viðað að sér úr ýmsum áttum.

LÍ 8969

Listasafn Íslands